Þann 30. nóvember sl. var “Booster” haldinn, sem er árlegur fagdagur PMTO meðferðaraðila á Íslandi. Mæting var góð og dagskráin fjölbreytt, skemmtileg og fræðandi, sem veitti góða faglega innspýtingu.  Margrét Sigmarsdóttir forstöðumaður Miðstöðvar PMTO hjá Barnaverndarstofu opnaði daginn og fór m.a. yfir nýjustu rannsóknarniðurstöður innan aðferðarinnar og stöðu innleiðingar PMTO á Íslandi. Síðan tók við vinna með PMTO verkfærið lausnaleit og þar á eftir rýnt í hvernig stytta megi einstaklingsmeðferð. Að lokum voru veittar upplýsingar um tilraunaverkefni meðferðar- og fósturteymis Barnaverndarstofu og miðstöðvar PMTO varðandi úrræði fyrir kyn- og fósturforeldra, en áform eru um að setja verkefnið af stað innan tíðar.  Íhlutunin miðar einkum að því að bæta foreldrafærni, stytta dvöl barns í fóstri og koma í veg fyrir vistun síðar. Þær Laura A. Rains frá Oregon og Luann J. Grey frá Michigan fluttu frábæran fyrirlestur í gegnum fjarfundabúnað varðandi þann þátt meðferðarinnar sem lýtur að kynforeldrum (PTC-R) og vitnuðu einnig í verkefni í New York, Kansas og Michigan í Bandaríkjunum.

Að lokinni formlegri dagskrá gafst þátttakendum enn frekara tækifæri til að spjalla, gleðjast saman, njóta endurfunda og kynnast nýjum aðilum innan hópsins.