Á sumarsólstöðum, þann 21. júní sl., útskrifuðust 14 nýir PMTO meðferðaraðilar á vegum Miðstöðvar PMTO-FORELDRAFÆRNI hjá Barnaverndarstofu. Athöfnin fór fram í Norræna húsinu og voru góðir gestir til staðar til að fagna, þ.á.m. Heiða Björk Pálmadóttir, starfandi forstjóri Barnaverndarstofu sem ávarpaði nemana, ýmsir aðilar sem komið hafa að handleiðslu og kennslu í náminu, auk yfirmanna viðkomandi nema. Dr. Marion Forgatch, sem hefur verið leiðandi afl þróunar PMTO á heimsvísu, talaði einnig til nemanna og óskaði þeim til hamingju með áfangann í gegnum vefmyndavél. Þrír aðilar luku ekki námi að sinni, en viðkomandi munu ljúka á næstu mánuðum. Þetta er í síðasta sinn sem meðferðarmenntunin er á vegum miðstöðvarinnar og mun nýr hópur hefja meðferðarnám í haust á vegum Endurmenntunar HÍ í samstarfi við Miðstöð PMTO-FORELDRAFÆRNI hjá Barnaverndarstofu. Sálfræðideild HÍ hefur metið námið til 60 ECTS eininga.