NÝJAR RANNSÓKNARNIÐURSTÖÐUR, SEM BIRTUST Í VIRTA VÍSINDARITINU JOURNAL OF CLINICAL CHILD & ADOLECENT PSYCHOLOGY, SÝNA GÓÐA FRAMMISTÖÐU ÍSLENDINGA Á SVIÐI INNLEIÐINGAR GAGNREYNDRA MEÐFERÐARÚRRÆÐA VEGNA AÐLÖGUNARVANDA BARNA.

Greinin, sem ber yfirheitið „Implementing an Evidence-Based Intervention for Children in Europe: Evaluating the Full-Transfer Approach“, fjallar um innleiðingu gagnreyndrar meðferðar (Parent Management Training – Oregon aðferð: PMTO) til að fást við aðlögunarvanda barna, einkum hegðunarerfiðleika, í þremur Evrópulöndum; Íslandi, Danmörku og Hollandi. Þrír höfundanna eru Íslendingar, þau Margrét Sigmarsdóttir, Edda Vikar Guðmundsdóttir og Örnólfur Thorlacius.
Talsverð vakning er meðal stjórnmálamanna, fagfólks og almennings um gildi markvissra aðgerða til að takast á við aðlögunarvanda barna. Rannsóknir hafa sýnt að mikilvægt er að nýta vel rannsakaðar og viðurkenndar aðferðir til verksins. Algengt er að aðferðir af þessum toga séu innleiddar með því að þjálfa fagaðila og í framhaldinu hefja meðferð en að viðhaldi til lengri tíma sé ábótavant og því lítill ávinningur af herferðinni þegar upp er staðið.
Í þessari grein kemur fram að í Evrópulöndunum þremur viðhelst og eykst notkun aðferðarinnar yfir lengri tíma, þjónustan er í háum gæðaflokki og í dag er aðferðin hluti af sérfræðiþjónustu þessara landa.
Öll löndin fylgja skipulögðu ferli varðandi handleiðslu, þjálfun og gæðaeftirlit en eru að öðru leyti sjálfstæð í sinni vinnu. Gagnreynda meðferðarúrræðið PMTO er þróað í Oregon í Bandaríkjunum þar sem alþjóðleg miðstöð úrræðissins er til staðar. Á Íslandi eru flestir meðferðaraðilar miðað við íbúafjölda og miðstöð aðferðarinnar er hjá Barnaverndarstofu.

Umrædda grein er að finna á eftirfarandi slóð:

https://www.tandfonline.com/eprint/cFC9BGfSGphZzypyJ2NW/full