Barnaverndarstofa stóð fyrir kynningarfundi þann 8. febrúar sl. í samstarfi við Barnavernd Reykjavíkur. Til staðar voru fulltrúar barnavernda landsins og aðrir fagaðilar sem koma að þessum málaflokki í sveitarfélögunum. Fjallað var um tilraunaverkefni sem snýr að innleiðingu gagnreyndra meðferðarúrræða í málum þar sem börn fara í tímabundið fóstur. Um er að ræða aðferðir sem byggja á PMTO, sem fela í sér hópmeðferð (PTC-R) fyrir kynforeldra og hópnámskeið (KEEP) fyrir fósturforeldra eftir að barn er komið í tímabundið fóstur. Verkefnið er nýjung hér á landi og er markmiðið að veita kerfisbundinn stuðning við kynforeldra, í því skyni að efla færni þeirra svo barnið geti snúið heim á ný. Jafnframt er markmiðið að styrkja færni fósturforeldra eftir að barn kemur í fóstur. Eftirfarandi aðilar frá Barnaverndarstofu voru með innlegg: Margrét Sigmarsdóttir forstöðumaður miðstöðvar PMTO-Foreldrafærni, Arndís Þorsteinsdóttir sálfræðingur og teymisstjóri hjá miðstöðinni og Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs.

Sjá nánar á eftirfarandi slóð: http://www.bvs.is/barnaverndastofa/frettir/hopmedferd-fyrir-kynforeldra-og-fosturforeldra-barna-sem-eru-i-timabundnu-fostri