PMTO þjónusta er ýmist veitt foreldrum einstaklingslega eða í hópi og er það háð aðstæðum foreldra og þjónustutilboði hvers svæðis. Þjónustan miðast við foreldra barna með hegðunarerfiðleika. Einstaklingsmeðferð felst í vikulegum viðtölum hjá PMTO-meðferðaraðila í allt að 25 skipti auk fjölþætts stuðnings í formi stuðningssímtala, heimaverkefna og funda með öðrum kerfum eins og til dæmis skólakerfinu. Einstaklingsmeðferð er sérstaklega sniðin að þörfum hverrar fjölskyldu. Hópmeðferð hefur hliðstæð markmið og einstaklingsmeðferð. Um er að ræða fjórtán vikna tímabil þar sem foreldrar sækja vikulega hópfundi, í eina og hálfa klukkustund í senn, undir stjórn PMTO meðferðaraðila. Milli funda vinna foreldrar verkefni, fá stuðning í formi símtala og með öðrum hætti eftir þörfum hverrar fjölskyldu. Foreldranámskeið eru  boðin ef um er að ræða væga hegðunarerfiðleika eða ef börn eru í áhættu að þróa hegðunarerfiðleika. Foreldrahópurinn hittist vikulega í átta skipti, tvær og hálfa klukkustund í senn, alls tuttugu klukkustundir.

Yfirlit yfir PMTO meðferðaraðila á Íslandi

Hafnarfjarðarbær: Foreldrar og forsjáraðilar geta sótt um PMTO þjónustu á þar til gerðum eyðublöðum hjá öllum leik- og grunnskólum bæjarins eða hjá Fjölskylduþónustunni í síma 585 5800. Umsókn er fyllt út og send verkefnastjóra PMTO á Skrifstofu Fræðslu- og frístundaþjónustu. Nánari upplýsingar eru að finna í bæklingi. Upplýsingabæklingur um PMTO hjá Hafnarfjarðarbæ

Akureyrarbær: Sótt er um PMTO þjónustu á sérstökum eyðublöðum: “Tilvísun til sérfræðiþjónustuleik-og grunnskóla” og er umsóknum skilað á Fræðslusvið Akureyrarbæjar í Glerárgötu 26. Umsóknareyðublöðin má fá í öllum leik-og grunnskólum bæjarins, á Fjölskyldudeild og á Fræðslusviði Akureyrarbæjar. Umsjónarkennarar, leikskólakennarar, skólastjórnendur og starfsfólk HSN aðstoða foreldra við að sækja um. Frekari upplýsingar má fá í síma 460 1455, hjá verkefnastjóra PMTO og í bæklingi. Upplýsingabæklingur um PMTO hjá Akureyrarbæ

Reykjavíkurborg: Þjónustan er aðgengileg í öllum hverfum borgarinnar. Sótt er um PMTO úrræði á þjónustumiðstöð í því hverfi sem foreldrar og forsjáraðilar búa og þarf að fylla út sérstakt eyðublað:  “Umsókn um PMTO úrræði”. Einnig er hægt að nálgast umsóknareyðublöð í grunnskólum og leikskólum á fundi með aðilum skólaþjónustu þjónustumiðstöðvanna. Nánari upplýsingar um heimilisfang og símanúmer þjónustumiðstöðva er að finna í bæklingi. Upplýsingabæklingur um PMTO hjá Reykjavíkurborg

Grindavíkurbær: Foreldrar og forsjáraðilar geta fengið upplýsingar um PMTO þjónustu í skólum bæjarins. Einnig er hægt að sækja um úrræðið og fá nánari upplýsingar í síma 420 1100 hjá Skólaskrifstofu Grindavíkurbæjar. Frekari upplýsingar er að finna í bæklingi. Upplýsingabæklingur um PMTO hjá Grindavíkurbæ

Back to Top