Þar sem foreldrar eru mikilvægustu kennarar barna sinna er áhersla lögð á ítarlega vinnu með þeim þar sem þeir fá aðstoð við að rjúfa þann vítahring sem hefur myndast í samskiptum með því að tileinka sér nýjar leiðir í uppeldi. Unnið er með ákveðna grunnþætti til að stuðla að jákvæðri hegðun barnsins og draga úr hegðunarvanda. Í fyrsta lagi fá foreldrar aðstoð við að nýta kerfisbundna hvatningu til að kenna börnum nýja hegðun og til að beina athygli að því sem vel gengur. Í öðru lagi er þjálfun í að setja mörk til að foreldrar geti stöðvað erfiða hegðun barna sinna með einföldum og skilvirkum aðferðum. Í þriðja lagi er farið yfir markvisst eftirlit þar sem foreldrum er kennt að hafa eftirlit með því hvar barnið er á hverjum tíma, með hverjum, hvernig farið er á milli staða, hvað það er að gera og hver ber ábyrgð. Í fjórða lagi er þjálfað í lausnaleit þar sem foreldrar eru þjálfaðir í aðferðum til að leysa ágreining, komast að samkomulagi um reglur og skipulag innan og utan heimilis. Í fimmta lagi er stuðlað að jákvæðri samveru og afskiptum sem felst í ýmsum leiðum foreldra til að sýna börnum sínum ást og umhyggju. Unnið er með þessa fimm meginþætti og þeir samtvinnaðir sérkennum hverrar fjölskyldu. Jafnframt fá foreldrar þjálfun í að nota skýr fyrirmæli og unnið er með tilfinningar og samskiptatækni. Einnig er unnið með tengsl heimilis og skóla og til samans má líkja öllum þessum færniþáttum við verkfæri sem með réttri notkun stuðla að góðri aðlögun barns. (Samantekt: Margrét Sigmarsdóttir, sálfræðingur Ph.D. sjá nánar í heimildum/lesefni.)

Back to Top